University of Wisconsin Digital Collections
Link to University of Wisconsin Digital Collections
Link to University of Wisconsin Digital Collections
Icelandic Online Dictionary and Readings

Sverrir Hólmarsson; Sanders, Christopher; Tucker, John / Íslensk-ensk orðabók (1989)

    [p. 7]  

Formáli

Þeir enskumælandi menn sem leitast við að kynna sér íslenska tungu og menningu, sem og þeir Íslendingar sem þurfa að beita enskri tungu í námi sínu og starfi, hafa lengi fundið fyrir skorti á nothæfri orðabók um algengt íslenskt nútímamál með samsvarandi þýðingum og skýringum á ensku. Við samningu þessarar orðabókar hefur verið leitast við að sinna eftir megni mismunandi þörfum þessara tveggja ólíku hópa. Fróðleikur um íslenska málfræði og beygingarmyndir er ætlaður enskumælandi mönnum. Fyrir íslenska notendur hafa ólíkar merkingar margræðra orða verið greindar sundur í töluliði með útskýringum á íslensku.

Stærð bókarinnar ákvarðaðist af því markmiði höfunda að semja handhæga og gagnorða bók, sem gæti verið sem flestum aðengileg, og að ljúka verkinu á tiltölulega mjög skömmum tíma. Fjölda orða á sérsviðum hefur verið haldið í lágmarki og einnig er fjölmörgum samsettum orðum sleppt.

Helsta kveikja þessarar bókar meðal tvítyngdra orðabóka á íslensku var Isländisch-deutsches Wörterbuch, Leipzig 1967, eftir Svein Bergsveinsson. Orðaforða höfum við meðal annars heyjað okkur úr Orðabók Menningarsjóðs, 2. útg. 1983, Íslensk-danskri orðabók, Reykjavík 1976, eftir Ole Widding, Harald Magnússon og Preben Meulengracht Sørensen, svo og Orðabók um slangur, Reykjavík 1982. Einnig voru hafðar til hliðsjónar Íslensk-ensk orðabók, 3. útg. 1957, eftir Geir Zoega, Íslensk samheitaorðabók, Reykjavík 1987, Dansk-engelsk ordbog, 2. útg. Kaupmannahöfn 1966, eftir Vinterberg og Bodelsen, Ensk-íslensk orðabók eftir Sören Sörenson, Reykjavík 1984, og Ensk-íslensk viðskiptaorðabók, Reykjavík 1982 eftir Terry G. Lacy og Þórð Einarsson. Á lokastigi var orðaforði bókarinnar síðan borinn saman við fyrstu 7000 orðin í orðtíðniskrá sem þeir Eiríkur Rögnvaldsson og Vilhjálmur Sigurjónsson tóku saman.

Við stöndum í þakkarskuld við marga aðra en höfunda þessara bóka. Vísindasjóður Kanada veitti ríflegan styrk til verksins og Bókaforlagið Iðunn hefur stutt okkur af ráðum og dáð síðan það tók þessa bók upp á sína arma og gerði höfundum kleift að sinna verkinu. Án þessa stuðnings hefði bókin aldrei orðið til. Auk þess viljum við þakka eftirtöldum aðilum sérstaklega. Stúdentar við University of Victoria gengu frá upphaflegum gagnagrunni verksins og tölvuunnu mikið af síðari breytingum. Í þeim hópi voru David Beck, Jana Epstein, Monica Hofer, Bryony Lake, Karen Robertson og Malcolm Woodland. Vinna þeirra, sem innt var af hendi af stakri alúð, var að hluta til greidd af atvinnumiðlunarsjóði stúdenta í Kanada. Einnig ber að þakka framlag tölvuþjónustu og rannsóknastjórnunardeilda háskólans í Victoria. Herb Fox, Moira Glen, Martin Milner og Sam Wong hjálpuðu okkur yfir ýmsar torfærur með tilstyrk fjár úr rannsóknarsjóðum University   [p. 8]   of Victoria. Svavar Sigmundsson var okkur frá upphafi til ráðuneytis um íslenska málfræði, samdi málfræðiyfirlit, las lokadrög að öllum hlutum bókarinnar og auk þess eina próförk. Ágúst H. Bjarnason lét okkur í té orðalista um plöntur og Eiríkur Rögnvaldsson lista yfir málfræðiheiti. Starfsfólk Orðabókar Háskólans hefur svarað fyrirspurnum og góðfúslega veitt aðgang að seðlasafni sínu. Prófarkir lásu Terry G. Lacy, Jörundur Hilmarsson, Jón Gunnarsson og Jón Skaptason sem leiðréttu margt og gáfu góðar ábendingar. Öllum þessum aðilum, svo og ónefndum vinum og velunnurum, þökkum við góð ráð, leiðréttingar og leiðbeiningar en auðvitað skrifast hvaðeina sem missagt er í bók þessari á kostnað höfunda.


Go up to Top of Page