University of Wisconsin Digital Collections
Link to University of Wisconsin Digital Collections
Link to University of Wisconsin Digital Collections
Icelandic Online Dictionary and Readings

Austrænir og afrískir víkingar (Miðvikudaginn 4. desember, 2002)

 

[Article]

Miðvikudaginn 4. desember, 2002 - Fólk í fréttum

Afrísk magadanssýning um helgina

Austrænir og afrískir víkingar

ÁÞREIFANLEG sönnun þess að fjölmenningarlegt samfélag blómstrar á Íslandi fæst í sameiginlegri sýningu á afrískum dönsum og magadansi í Austurbæ um helgina.

Color photograph

Color photograph

ÁÞREIFANLEG sönnun þess að fjölmenningarlegt samfélag blómstrar á Íslandi fæst í sameiginlegri sýningu á afrískum dönsum og magadansi í Austurbæ um helgina. "Þetta er fyrsta afrósýningin af sínu tagi á Íslandi," segir frumkvöðullinn Orville Pennant, afrókennari í Kramhúsinu.

Hann segir að um sé að ræða nokkurs konar íslenskt afró því hann hafi lagað hefðbundinn dans Bagga-þjóðflokksins í Gíneu að Íslandi. "Búningarnir verða í íslensku fánalitunum. Dansinn er ennfremur útfærður á nútímalegri hátt," segir Orville, sem lofar viðstöddum góðri skemmtun.

Í afríska danshópnum eru ellefu dansarar auk Orvilles og tveggja trommara frá Gíneu, Alsylla og Sagatala.

Helga Braga sérstakur gestur

Auk Orvilles stendur Josy Zareen, magadanskennari í Kramhúsinu, að sýningunni en þau tvö semja alla dansa. Orville er sjálfur ættaður frá Jamaíku en Josy frá Brasilíu og þau eru bæði sérfræðingar á sínu sviði.

"Með Josy verða um 50 manns á sviðinu. Hennar hópur samanstendur bæði af byrjendum og reyndara fólki. Hún vildi sýna að allir geti lært magadans og að allir geti staðið á sviði," útskýrir Orville og bætir við að Helga Braga verði sérstakur gestur á sýningunni.

Ekki er um að ræða venjubundna nemendasýningu. Orville segir að afróhópurinn, sem tekur þátt í sýningunni nú, sé vísir að framtíðardanshópi, er sérhæfir sig í afrískum dönsum.

"Ég hef mikla ánægu af því að fá þetta tækifæri til að sýna fólki afródans með íslensku fólki. Þannig geta Íslendingar áttað sig á því að afrískir dansar lifa góðu lífi á Íslandi. Afró er hluti af lífi okkar," segir Orville, sem vill greinilega fá sem flesta til að kynnast dansinum.

Sýnt í Austurbæ föstud. og laugard. kl. 20 og barnasýning sunnud. kl. 17. Miðasala í Exodus Hverfisgötu, Kramhúsinu og á magadans.is.

© Morgunblaðið, 2004


Go up to Top of Page